Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?

Skóli og heimavist fyrir fátæk börn í Andhra Pradesh á Austur-Indlandi

Indland

Sameinaða indverska kirkjan, United Christian Church of India eða UCCI, hefur í 30 ár hjálpað fátæku stéttlausu fólki og börnum þeirra með því að halda úti skólastarfi og heimavist ásamt matargjöfum og spítalarekstri í Andhra Pradesh-fylki. Hjálparstarf kirkjunnar er einn stærsti styrktaraðili verkefnisins og hefur í 25 ár stutt starfið með því að kosta börn í skóla og heimavist ásamt því að senda stök framlög vegna viðhalds og byggingar og til starfsemi spítalans.

Viltu taka þátt í verkefninu og gerast fósturforeldri? Meira um það hér.

Börnin sem styrkt eru til náms eru fæst munaðarlaus en sakir fátæktar og fordóma í garð stéttlausra komast fá í skóla og mörgum þeirra gengur illa. Komist börnin inn hjá UCCI opnast þeim möguleiki til betra lífs en félagsleg staða þeirra, fátækt og vankunnátta býður þeim. Auk þess er þeim um leið forðað frá óhóflegri vinnu, hungri og skorti á læknisþjónustu. Skólastarfið er því mikilvæg forvörn gegn því að börn lendi í vinnuþrælkun. Flest börnin ganga í Emmanúelskólann í þorpinu Kethanakonda. Nokkur eru í Janet English Medium School, yngrideildaskóla á sama stað, þar sem kennt er á ensku og loks styður Hjálparstarfið ungmenni til náms í iðn- og verkþjálfunarskóla.

Emmanúelskólann sækja alls um 700 heimavistarnemendur á aldrinum 5-17 ára. Skólinn fylgir almennri námsskrá fylkisins en 22 kennarar eru við skólann. Kennt er á telugu, máli héraðsins. Skólahús eru hreinleg með helsta skólabúnaði þótt ekki séu allar stofur búnar bekkjum og borðum.

Í skólanum fá börnin þrjár máltíðir á dag og eftirmiðdagskaffi. Þess er gætt að máltíðir séu vel samsettar af nauðsynlegum næringarefnum. Börnin matast sitjandi í beinum röðum á gólfinu og nota eigin disk sem þau þvo og gæta milli mála. Eftirlit er með heilsu barnanna á spítala UCCI. Vari veikindi lengur en í 3-4 daga eru börn send heim í umsjá foreldra sinna en fá send lyf með sér heim. Verði slys er hlúð að viðkomandi á spítala UCCI en eftir það eru börn send heim meðan þau eru að ná sér að fullu. Börnin fá fatnað og skóladót á hverju ári.

Tíu starfsmenn auk kennara starfa við Emmanúelskólann til að sinna börnunum utan kennslu. Þeir kenna umgengni, hjálpa við heimalærdóm og undirbúning fyrir próf, kenna um samfélagslegar skyldur og fleira. Þeir veita grunnráðgjöf og stuðning þótt ekki sé um faglega sálfræði- eða félagsráðgjöf að ræða. Mikið er um dans, söng, leiki og leiklist. Kristið trúarlíf er áberandi við skólann enda samtökin kristileg. Þó er haldið upp á ýmsar hátíðir hindúa og engin skilyrði eru um að börn gerist kristin í skólanum né er valið inn í skólann á forsendum trúar. Foreldrar koma og biðja um skólavist fyrir börnin. Einnig sækja þorpsleiðtogar og aðrir um pláss fyrir hönd bágstaddra fjölskyldna.

Hjálparstarfið tryggir greiðslur fyrir stuðningi við ákveðinn fjölda barna og leitar svo til styrktarmanna sem hafa fengið heitið Fósturforeldrar um framlög. Með þessu fyrirkomulagi þurfa Fósturforeldrar aldrei að ákveða hvort barn kemst í skóla og heldur ekki að bera ábyrgð á því að barnið verði sent heim þurfi þeir að hætta stuðningi. Fyrirkomulagið tryggir þannig stöðugleika í skólagöngu barnanna.

Fósturforeldrar fá árlega upplýsingar um námsárangur, nýja mynd og jólakveðju. Þeir geta skrifað barninu og sent því smágjafir. Börnin eru þó fæst orðin svo góð í ensku að þau geti svarað frá eigin brjósti fyrr en þau eru orðnir unglingar. En menntun býr með börnunum það sem eftir er og hefur margvísleg áhrif á möguleika þeirra og ákvarðanir sem munu hjálpa þeim til að lifa farsælla lífi en ella.

Á starfsárinu 2013 - 2014 styrktu Hjálparstarf kirkjunnar og 300 íslenskir fósturforeldrar alls 489 börn til skólavistar. Fjörtíu og fjögur þeirra ganga í skóla en eru ekki á heimavist. 231 barn er í skóla og á heimavist og 214 ungmenni eru í bóklegu eða verklegu framhaldsnámi. Hjálparstarfið greiðir auk þess hluta launa átta kennara til að að hægt sé að veita nógu góð kjör til að halda í reynda kennara.