Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?

Markmið

Að létta á örbirgð og efla virðingu fyrir mannréttindum þeirra sem líða fátækt og óréttlæti eru yfirmarkmið með öllum þróunarsamvinnuverkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar. Starfið snýr fyrst og fremst að þeim sem verst eru settir og þeim sem ekki geta björg sér veitt svo sem sjúkum, fötluðum og börnum. Í starfinu er haft að leiðarljósi að það leiði til sjálfshjálpar, virkni og sjálfbærrar þróunar í samfélögum sem starfað er með.

Starfsaðferð

Nálgun stofnunarinnar er að styðja fólk og samfélög við að finna eigin lausnir á vanda sem að þeim steðjar og efla fólk til áhrifa. Það er gert með því að veita því stuðning til formlegrar og óformlegrar skólagöngu og með ýmiskonar þjálfun og efnislegri aðstoð. Hluti af starfinu felst í fræðslu um réttindi og skyldur einstaklinga, samfélags og stjórnvalda eða annarra sem bera ábyrgð á velferð fólks.

Hjálparstarfið virkjar skjólstæðinga eins og mögulegt er í öllum þróunarsamvinnuverkefnum og leitast er við að byggja upp þekkingu og færni fólks svo þróun verði sjálfbær og utanaðkomandi aðstoð óþörf.

Áherslusvið í öllum verkefnum Hjálparstarfsins erlendis eru fimm:

 1. Skapa sjálfbær samfélög með því að hjálpa þeim verst settu að tryggja sér nægt vatn og fæðu, skapa aðgang að menntun og hjálpa fólki að afla sér tekna eftir nýjum leiðum. Hjálparstarfið vill þannig opna farveg fyrir breytingar, fjölga tækifærum þeirra verst settu og auka möguleika þeirra til að nýta sér þau og lifa með reisn, sjálfu sér nógt.

2. Auka möguleika kvenna og stúlkna með því að beina aðstoð frekar til þeirra og um leið sjá til þess að veitt aðstoð nýtist fjölskyldu og samfélagi sem best. Einnig að vinna gegn ofbeldi gegn konum og fræða um mannréttindi. Í verkefnum Hjálparstarfsins er lögð áhersla á að fræða og þjálfa þá sem eru utangarðs til þess að móta sér skoðanir og taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra.

3. Auka möguleika hinna verst settu til menntunar. Stuðla að því að börn, ekki síst stúlkur, komist í skóla og heltist ekki úr lestinni heldur ljúki námi sem veitir starfsréttindi eða rétt til framhalds- og háskólanáms. Auka einnig möguleika fullorðinna, ekki síst kvenna til að læra eithvað hagnýtt sem bætir lífsafkomu þeirra.

4. Hefta útbreiðslu HIV veirunnar og koma í veg fyrir upplausn í fjölskyldum og samfélagi af völdum alnæmis með fræðslu, forvörnum og stuðningi við sjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifandi börn og fjölskyldur.

5. Hjálparstarfið er meðvitað um umhverfismál og hættur sem fátæku fólki, umfram aðra, stafar af hnignun umhverfisins. Í verkefnum sínum leggur hjálparstarfið áherslu á fræðslu um umhverfismál og aðgerðir og umbætur sem vernda umhverfið og snúa við hættulegri þróun þar sem hún á sér stað. Hjálparstarfið nýtir sér þekkingu samstarfsaðila á aðstæðum til þess að vinna sjálfbærum aðferðum fylgis s.s. varðandi tegundir og aðferðir við ræktun, skepnuhald og tvinnar jafnframt forvarnir gegn flóðum, þurrkum og öðrum áhrifum veðurfarsbreytinga inn í starf sitt.