Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
31.01.2020
„Mikilvægt að efla viðbragðsgetu samfélagsins“
Malaví mæður og börn

Fellibylurinn Idai sem reið yfir sunnanverða Afríku í mars 2019 og flóð sem honum fylgdu ullu gríðarlegri eyðileggingu í Mósambík, Malaví og Simbabve. Í Malaví einu saman létu 56 manns lífið í hamförunum og 577 lágu eftir slasaðir. Fleiri en 82,700 íbúar misstu heimili sín en samkvæmt Samhæfingarmiðstöð Sameinuðu þjóðanna, OCHA, hafði fellibylurinn neikvæð áhrif á lífsafkomu um 923.000 íbúa í landinu.

Hjálparstarf envangelísk-lútherksu kirkjunnar í Malaví, ELDS, er meðal fjölda hjálparstofnana sem hafa veitt neyðaraðstoð á vettvangi hamfaranna frá fyrstu stundu. Í nóvember síðastliðnum sendi Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi, með styrk frá utanríkisráðuneytinu, tæpar 7,4 milljónir króna sem framlag til aðstoðar og uppbyggingarstarfs ELDS en verkefninu lýkur í september 2020.

Strax í kjölfar fellibylsins setti ELDS sér það markmið að aðstoða þá 8.800 íbúa í héruðunum Phalombe og Chikwawa sem verst urðu úti með því að útvega þeim næringarríka fæðu og tryggja þeim aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að börn yngri en fimm ára fái næga næringu og að íbúarnir og þá sérstaklega börnin njóti sálfélagslegs stuðnings til að takast á við streitu í kjölfar hamfaranna. Þá hefur verið unnið að því að styrkja viðbragðsgetu samfélagsins við hamförum og bændur fengið aðstoð við að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

Fjármögnun verkefnisins gekk hægar en vonast var til og hefur það haft áhrif á framgang þess. Á fyrstu mánuðum þess tókst þannig að útvega 50% markhópsins, 4.400 íbúum næringarríka fæðupakka sem samanstanda af maís, baunum og matarolíu, og  400 börn yngri en fimm ára, 92% markhópsins, fengu sérstaka næringarpakka. Betur hefur gengið með að tryggja aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu en 98% markhópsins fengu hreinsitöflur, áhöld og fræðslu um mikilvægi hreinlætis. Viðgerð er nú lokið á brunnum og vatnsdælustöðvum og bændur hafa fengið korn og verkfæri til ræktunar.

Dickens Mtonga, verkefnisstjóri neyðaraðstoðar ELDS, segir einn mikilvægasta þáttinn í verkefninu vera samvinnuna við fólkið sjálft og sveitarstjórnir um að efla viðbragðsgetu þegar náttúruhamfarir verða. „Fimmtíu almannavarnafulltrúar hafa nú fengið fræðslu og þjálfun í gerð viðbragðsáætlana og við höfum gefið út handbók á máli heimamanna um varnir og viðbrögð við náttúruvá. Hún er fyrir allt samfélagið því þar er svo mikilvægt að allir viti hvernig best er að búa sig undir hamfarir svo við bregðumst sem best við þeim þegar þær verða,“ segir Dickens.   

07.01.2020
Valdefling kvenna - frasi eða framfarir?
bls 4 _DSC8492-TH-Thorkelsson-Ethiopia-Des-2016

Málþing um hjálparstarf í tilefni fimmtíu ára starfsafmælis Hjálparstarfs kirkjunnar verður á Grand Hotel, Sigtúni 38, 104 Reykjavík, fimmtudaginn 9. janúar kl. 16:30 – 18:30. 

Hjálparstarf kirkjunnar fagnar fimmtíu ára starfsafmæli á árinu 2020 en formleg ákvörðun um hjálparstofnun á vegum íslensku þjóðkirkjunnar var tekin á fundi kirkjuráðs þann 9. janúar 1970. Hjálparstarfið hefur frá stofnun haft það hlutverk að veita fólki sem býr við sára fátækt neyðaraðstoð, hver svo sem orsök neyðarinnar er. Aðstoðin er veitt þannig að hún sé valdeflandi, - að hún sé raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar. Markhópar Hjálparstarfsins hvort sem er í verkefnum hér á Íslandi, á átaka- eða náttúruhamfarasvæðum eða í þróunarsamvinnuverkefnum í einna fátækustu samfélögum heims er fólkið sem býr við erfiðustu aðstæðurnar og getur síst veitt sér björg upp á eigin spýtur. Á málþinginu á afmælisdaginn sjálfan, þann 9. janúar 2020, ætlum við að fjalla um valdeflingu kvenna og leitast við að svara því hvort sú aðferð sé aðeins frasi í hjálparstarfi eða hvort hún leiði til raunverulegra framfara í samfélögum þar sem henni er beitt. 

Frú Eliza Jean Reid, forsetafrú, og Magnús Árni Skjöld Magnússon, forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst, flytja erindi en þau eru bæði virk í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Þá segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, frá þróunarsamvinnu í Eþíópíu og Úganda og félagsráðgjafarnir Sædís Arnardóttir og Vilborg Oddsdóttir fjalla um virkniverkefni Hjálparstarfsins hér heima á Íslandi. Þá munu þátttakendur í verkefnum fjalla um reynslu sína af þeim. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og verndari stofnunarinnar, flytur ávarp í upphafi málþings. Allir velkomnir! Viðburðurinn á facebook: https://www.facebook.com/events/425676288308639/

Frekari upplýsingar veitir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar í síma 6155563, kristin@help.is

23.12.2019
Skrifstofutími Hjálparstarfs kirkjunnar yfir hátíðirnar
jólakveðja
Skrifstofa Hjálparstarfs kirkjunnar er opin á Þorláksmessu klukkan 8 - 18. Við svörum í alla síma skrifstofunnar þann dag til klukkan 15:30 en frá 15:30 - 18:00 aðeins í síma 5284407. Skrifstofan er opin á aðfangadag klukkan 10 - 12 og svo næst föstudaginn 27. desember klukkan 8 - 16 og mánudaginn 30. desember klukkan 8 - 16 sömuleiðis. Lokað verður á gamlársdag og fram til fimmtudagsins 3. janúar en frá þeim degi verður opið eins og venjulega á virkum dögum klukkan 8 - 16.   
28.11.2019
Vatn, húsaskjól og betri heilsa - með þinni hjálp!
Forsíðumynd Margt smátt  4 2019

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til verkefna í sveitum Úganda og Eþíópíu. Fólkið sem við aðstoðum þar býr við mikinn skort um aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu.

Söfnunin er með þeim hætti að við höfum nú sent 2500 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna á aldrinum 30 – 80 ára. Við bendum jafnframt á söfnunarsímann 907 2003 en með því að hringja í númerið leggur fólk til 2500 krónur sem bætast við á næsta símreikningi. 

Gjafabréfin okkar fást á gjofsemgefur.is og svo er hægt að leggja inn framlag að eigin vali á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning okkar 0334-26-50886, kt. 450670-0499.

Takk fyrir stuðninginn!

15.11.2019
Stuðningur fyrir jólin
20190515_121546

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar undirbúa nú aðstoð við efnalitlar fjölskyldur í desember. Aðstoðin er veitt með inneignarkortum í matvöruverslunum, ásamt jólagjöfum fyrir börnin og jólafatnaði fyrir börn jafnt sem fullorðna, en fatnaðinn hefur okkur verið gefinn og er vel með farinn, hreinn og heill. Markmiðið er að gera fólki kleift að gleðjast með sínum nánustu yfir hátíðirnar. 

Við tökum á móti umsóknum frá barnafjölskyldum á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju, dagana 3., 4. og 5. desember kl. 11 - 15. Athugið að gögn sem sýna tekjur og útgjöld frá mánaðamótum nóvember og desember skulu fylgja með umsókn. Fjölskyldur sem hafa fengið Arion inneignarkort í matvöruverslunum frá Hjálparstarfi kirkjunnar eftir 1. júlí 2019 geta fyllt út umsóknareyðublað hér.  

Einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki börn á framfæri er bent á að hægt er að sækja um stuðning hjá Mæðrastyrksnefndum og Hjálpræðishernum.  

Alls nutu 1274 fjölskyldur eða um 3400 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól. Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar veita styrki til stafsins ár hvert og vinnuframlag sjálfboðaliða við skráningu og afgreiðslu umsókna fyrir jól er jafnframt ómetanlegt. 

Nánar um aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og samstarfsaðila fyrir jól er að finna hér

Christmas assistance, information in English