Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
fridarljos
Viltu senda
minningarkort?
31.08.2016
Er fátæktarklám í fjölmiðlum?
Fundur fólksins

Fundur í Aalto fundarherbergi í Norræna húsinu á föstudaginn 2. september klukkan 16:00 - 17:00

Pepp á Íslandi (People experiencing Poverty) sem hefur að markmiði að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun og Hjálparstarf kirkjunnar standa fyrir viðburði á Fundi fólksins á föstudaginn 2. september klukkan 16:00 – 17:00. Um er að ræða samtal milli fólks sem býr við eða hefur búið við fátækt og fjölmiðlafólks um hvernig fjölmiðlar fjalla um fátækt, hvers vegna og hvort og hvernig mætti gera betur.

Hugmyndin er að ræða um það hvernig fólk sem býr við fátækt myndi vilja að rætt væri um það og aðstæður þess? Hlustar fólk ekki nema ákveðinn vinkill sé hafður í umfjöllun? Er hægt að fjalla um fólk í erfiðum aðstæðum með virðingu og af nærgætni og halda athygli almennings um leið?

Fundarstjóri er Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar. Við pallborðið sitja Laufey Ólafsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp, Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans, Ása Sverrisdóttir, Pepp Akureyri, Lóa Pind Aldísardóttir, dagskrárgerðarmaður á Stöð 2, Þorkell Þorkelsson (Keli) ljósmyndari og Sædís Arnardóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfsins.

Nánar um viðburðinn má sjá á https://www.facebook.com/events/1273438802687964/

15.08.2016
Aðstoð veitt í upphafi skólaárs
Sjálfboðaliðar
Sjálfboðaliðar aðstoða fólk um fatnað á þriðjudögum.

Haustið er sá tími þegar fjölskyldur sem búa við kröpp kjör leita til Hjálparstarfsins um aðstoð við að mæta útgjöldum í upphafi skólaárs. Síðasta haust leituðu foreldrar hátt í 200 barna og unglinga til okkar um stuðning vegna þessa og við búumst við svipuðum fjölda umsókna nú.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka á móti umsóknum  þriðjudaginn 16. og fimmtudaginn 18. ágúst klukkan 13:00 – 15:00 og á sama tíma mánudaginn 22. og þriðjudaginn 23. ágúst. Umsækjendur eru beðnir um að hafa með sér gögn um tekjur og fjárhaglega stöðu. 

Auk þess að aðstoða fjölskyldur við kaup á ritföngum og skólavörum með gjafakortum í ritfangaverslanir styrkir Hjálparstarfið ungmenni sem orðin eru sjálfráða og vilja hefja eða ljúka framhaldsskólanámi sem gefur þeim réttindi til starfs eða inngöngu í háskóla. Styrkirnir eru til greiðslu skólagjalda og fyrir bóka- og efniskostnaði.

Börn tekjulágra foreldra njóta einnig stuðnings svo þau geti iðkað íþróttir með jafnöldrum sínum, stundað tónlistarnám og tekið þátt í tómstundastarfi. Markmiðið er að þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu og að bágur efnahagur foreldranna takmarki ekki möguleika þeirra til þess.

Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins aðstoða fólk við að finna fatnað við hæfi en fataúthlutun er á þriðjudögum kl. 10:00 – 12:00. Hjálparstarfið tekur við heilum og hreinum fatnaði í húsnæði stofnunarinnar að Háaleitisbraut 66, Reykjavík, alla virka daga kl. 8:00 – 16:00. Hlýr vetrarfatnaður fyrir börn og unglinga er alltaf á óskalistanum hjá okkur.

Hjálparstarfið er á sama máli og Barnaheill um að börn eigi að geta stundað nám án þess að finna fyrir mismunandi efnahagsstöðu foreldra sinna og hvetur til undirskriftar á barnaheill.is/askorun þar sem skorað er á stjórnvöld að afnema gjaldtöku fyrir námsgögn.

29.07.2016
Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar
Öllasjóður

Í gær, fimmtudaginn 28. júlí, afhenti Minningarsjóður Ölla Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna til að styrkja börn sem búa við kröpp kjör til íþróttaiðkunar. Upphæðin safnaðist að stórum hluta til í áheitasöfnun fyrir sjóðinn í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2015.

Minningarsjóður Ölla var stofnaður haustið 2013 í kringum frumsýningu á heimildamyndinni um Örlyg Aron Sturluson, einn allra efnilegasta körfuboltamann sem Ísland hefur átt. Ölli lék með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í fyrsta Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands. Ölli lést af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir Stjörnuleikinn, aðeins 18 ára gamall. Það var vinur Ölla og samherji í Njarðvík á sínum tíma, Logi Gunnarsson körfuboltamaður, sem afhenti peningagjöfina á skrifstofu Hjálparstarfsins í gær.

Það gjörbreytir stöðu barnanna að njóta þessa stuðnings og fá þannig tækifæri til að taka þátt í íþróttastarfi með jafnöldrum sínum. Í fyrra fengu foreldrar hátt í 200 barna og unglinga styrk frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að mæta útgjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs og við reiknum með svipuðum fjölda umsókna í ár. Félagsráðgjafar okkar taka við styrkumsóknum á miðvikudögum frá kl. 12 – 16 frá og með 10. ágúst næstkomandi.

Frétt Stöðvar tvö um styrkveitinguna.

20.07.2016
Margt smátt ... er komið út
printscreen fyrir vefinn

Hér á Íslandi fögnum við flest sólinni og vonum að hann haldist þurr í sumarfríinu. Í Eþíópíu hafa miklir þurrkar í fyrra og í vor hins vegar valdið endurteknum uppskerubresti þannig að búfé hefur fallið úr hor og milljónir íbúa eu nú háðar aðstoð um lífsviðurværi. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við með matarsendingum á verstu þurrkasvæðin en ráða ekki óstudd við ástandið. Auk þess að glíma nú við þessar afleiðingar El Nino veðurhamsins er Eþíópía stærsta móttökuríki flóttafólks í Afríku með fleiri en 700.0000 manns í flóttamannabúðum víðs vegar um landið.

Hjálparstarf kirkjunnar, með styrk frá hjálparliðum sem styrkja starfið með föstu framlagi, almenningi og utanríkisráðuneytinu, hefur sent ellefu og hálfa milljón króna til að tryggja lífsviðurværi sjálfsþurftarbænda á verstu þurrkasvæðunum. Í fréttablaðinu okkar segjum við frá aðstæðum fólksins og hvernig aðstoðin sem veitt er gerbreytir lífi þess. Við segjum einnig frá starfinu innanlands; því sem nýliðið er og því sem er á döfinni. Hér er blaðið: Margt smátt...

06.06.2016
Samvera og góðar minningar
Sumarfrí og sjálfboðaliðar 047
Siglingar eru með því vinsælasta á dagskránni.

Samvera og góðar minningar - skipulagt 4 daga sumarfrí fyrir barnafjölskyldur í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn hefst á morgun 7. júní. Tuttugu og ein fjölskylda eða um 60 manns taka þátt í verkefninu sem er skipulagt í samvinnu við Hjálpræðisherinn á Íslandi. Markmiðið er að auka virkni og félagslega þátttöku og stuðla að samveru og gæðastundum efnalítilla fjölskyldna. Verkefnið er byggt á reynslu af samskonar verkefnum frá síðustu tveimur árum sem þátttakendur hafa verið mjög ánægðir með.