Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Fyrir vefsíðuna
Viltu senda
minningarkort?
20.11.2017
Jólaaðstoð Hjálparstarfsins
HK act 1

Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á að aðstoða fjölskyldufólk sem býr við kröpp kjör fyrir jólin svo það geti gert sér dagamun og glaðst með fjölskyldunni yfir hátíðirnar.

Nánar um hvar, hvernig og hvenær er hægt að sækja um er að finna hér.

Þær fjölskyldur sem hafa fengið inneignarkort í matvöruverslunum frá Hjálparstarfinu á árinu 2017 geta fyllt út umsóknareyðublað hér.

Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk fær einnig notaðan fatnað eða inneignarkort fyrir fatnaði, aðgöngumiða í leikhús og / eða bíó og inneignarkort hjá vinsælum veitingastöðum meðal barna og unglinga. Þá fá foreldrar efnislega aðstoð svo börnin geti fengið jólagjafir sem þau hafa sett á óskalistann. Á svæðum þar sem öðrum hjálparsamtökum er til að dreifa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við efnalitlar barnafjölskyldur. Á landsbyggðinni þar sem Hjálparstarfið er eitt að störfum er einstaklingum einnig veitt sérstök aðstoð fyrir jól.

Fyrir jól 2016 var gott samstarf um jólaaðstoð milli Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í Reykjavík og við Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefndir og Rauða krossinn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Árnessýslu. Eins og fyrr gat fólk einnig leitað til presta og djákna í kirkjum vítt um land. Alls naut 1471 fjölskylda (um 4000 einstaklingar) um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól eða 18 fjölskyldum fleiri en fyrir jól 2015. 

17.11.2017
Toyota á Íslandi styrkir Hjálparstarf kirkjunnar með sendibifreið
Toyota sendib. Hk

Hjálparstarf kirkjunnar hefur fengið í hendur nýja Proace sendibifreið frá Toyota á Íslandi. Bifreiðin verður notuð í fjölþættum verkefnum Hjálparstarfsins á Íslandi og nýtist ekki síst nú þegar mest er að gera fram að jólum.

„Við erum afar þakklát fyrir stuðning Toyotoa á Íslandi en nýja sendibifreiðin kemur í stað eldri bifreiðar sem Toyota gaf Hjálparstarfinu árið 2008. Bíllinn mun nýtast vel í ýmsum útréttingum en fyrir jólin er mikið að gera og margt að sækja og senda. Fyrir síðustu jól fékk 1471 fjölskylda eða um 4000 einstaklingar um allt land aðstoð og reiknum við með svipuðum fjölda í ár,“ sagði Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins þegar hann tók við lyklum af bifreiðinni frá Páli Þorsteinssyni, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi.

06.11.2017
Fermingarbörn safna fyrir vatni
Fermingarbsofnun_myndir_009

Börn í fermingarfræðslu ganga í hús um land allt vikuna 6. - 10. nóvember með söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd og safna fyrir vatnsverkefnum í Eþíópíu. Áður en börnin fara af stað fræðast þau um verkefnin og um gildi samhjálpar og náungakærleiks. Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og síðast en ekki síst börnin sjálf leggja á sig mikla vinnu við söfnunina og er framlag þeirra ómetanlegt.

Takk fyrir að taka vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á!

05.11.2017
Um Hjálparstarfið í Eþíópíu
bls 4 _DSC8492-TH-Thorkelsson-Ethiopia-Des-2016

Eþíópía er eitt af fátækustu ríkjum heims, númer 174 á lista 188 ríkja á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (samkvæmt skýrslu frá því í mars 2017). Ríkið er það næstfjölmennasta í Afríku með 94,4 milljónir íbúa. Um 45% þjóðarinnar er yngi en 15 ára og nær þriðjungur hennar er yngri en 24 ára að aldri. Langflestir, eða um 80%, búa í dreifbýli og hafa lifibrauð sitt af landbúnaði sem er háður úrkomu sem aftur er af skornum skammti. Landeyðing og uppskerubrestur í landinu eru að hluta til rakin til loftslagsbreytinga. Þurrkar eru tíðir og regntíminn ótryggur þar sem veðurfar er að breytast. Fleiri en tíu milljónir íbúa þurftu utanaðkomandi neyðaraðstoð vegna þurrka og uppskerubrests árið 2016.

Hjálparstarf kirkjunnar starfar með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í afskekktu Sómalífylki sem er eitt af fjórum fátækustu fylkjum í Eþíópíu. Grunnstoðir samfélagsins eru veikar og tíðir þurrkar valda þar viðvarandi matarskorti og vannæringu. Með því að tryggja fólkinu aðgengi að drykkjarhæfu vatni, hjálpa því til sjálfbærni í landbúnaði og stuðla að auknu jafnrétti leggur Hjálparstarfið lóð sín á vogarskálarnar til að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og útrýmingu fátæktar náist fyrir árið 2030.     

03.11.2017
Viltu vera Hjálparliði?
HK act 1

Má bjóða þér að slást í hóp Hjálparliða sem styrkja Hjálparstarfið með mánaðarlegu framlagi? Við erum að hringja út þessa dagana og bjóða velunnurum starfsins að vera með okkur í því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Stuðningurinn gerir okkur kleift að veita fólki neyðaraðstoð hér heima og í fátækustu samfélögum heims.

Viltu fræðast nánðar um starfið? Starfsskýrslan fyrir starfsárið 2016 - 2017 er hér.

Við gefum út fréttablað fjórum sinnum á ári, þriðja tölublað 2017 er hér.