Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
29.10.2018
Fermingarbörn safna fyrir vatni og valdeflingu
Fermingarbsofnun_myndir_009

Um tvö þúsund börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar um land allt ganga þessa dagana í hús í hverfinu sínu með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar og safna fyrir verkefnum stofnunarinnar í Úganda og Eþíópíu.

Í október komu til landsins ungmenni frá verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og veittu fleiri en fjörutíu fræðsluerindi um verkefnin í fermingarfræðslu og í félagsfræðiáföngum í framhaldsskólum.

Fjáröflun með aðstoð barna í fermingarfræðslu nú er sú tuttugasta í röðinni en í fyrra lögðu fermingarbörnin sitt af mörkum með því að safna yfir átta milljónum króna.

Hjálparstarf kirkjunnar biður landsmenn að taka vel á móti börnunum þegar þau banka upp á með bauk í hönd. Börnin ganga tvö til þrjú saman og baukurinn sem þau eru með er merktur Hjálparstarfi kirkjunnar, númeraður og með innsigli.

17.10.2018
Margt smátt ... 3. tbl. 2018 er komið út
forsíðan betri

Þriðja tölublað fréttablaðs Hjálparstarfs kirkjunnar er komið út og má finna hér  

Í blaðinu segjum frá heimsókn Trudy og Douglas til Íslands en þau eru ungir félagsráðgjafar sem starfa að verkefnum Hjálparstarfsins í Úganda. Til Íslands eru þau komin að fræða börn í fermingarfræðslu um aðstæður jafnaldra þeirra í Úganda og um verkefnin sem þau starfa að.

Í kjölfar fræðslunnar munu fermingarbörn um allt land ganga í hús með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar og bjóða landsmönnum að styðja starfið með fjarframlagi. Söfnunin verður á tímabilinu 29.október til 2. nóvember.

Við segjum líka frá verkefnum sem við vinnum með fólki hér heima og frá öðrum verkefnum í þróunarsamvinnu og þar sem veitt er mannúðaraðstoð. Við fjöllum um leiðir til að auka umburðarlyndi í fjölmenningarsamfélagi og hvernig unglingar á Íslandi ætla að hjálpast að á landsmóti sem framundan er.

Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári, tvisvar í tímaritsformi, sent til um 4.000 aðila í júní og október, og tvisvar í dagblaðsformi, sent á heimili í landinu með Fréttablaðinu í upphafi jólasöfnunar og í upphafi páskasöfnunar. Öll tölublöð árisns er hægt að nálgast hér á help.is undir flipanum Fréttablaðið Margt smátt... 

12.10.2018
Ekkert barn útundan með þinni hjálp!
Ekkert barn útundan bak

Í ágúst hóf Hjálparstarf kirkjunnar haustsöfnun til að fjármagna aðstoð við barnafólk á Íslandi undir slagorðinu Ekkert barn út undan. Söfnun lauk þann 10. október síðastliðinn en alls söfnuðust um 7,4 milljónir króna. 

Stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar við fjölskyldur sem búa við fátækt felst í inneignarkortum fyrir matvöru, aðstoð vegna kaupa á lyfjum og hjálpartækjum og í því að fólk getur sótt sér notaðan fatnað til stofnunarinnar án endurgjalds. Sérstök áhersla er lögð á að hlúa að börnum sem búa við fátækt svo þau geti tekið þátt í samfélaginu óháð efnahag.

Börn og unlingar undir átján ára aldri fá styrki til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs. Fyrir milligöngu Hjálparstarfsins geta börn og unglingar einnig sótt sumarbúðir og sjálfstyrkingarnámskeið. 

Framtíðarsjóður er sérstakur sjóður Hjálparstarfsins sem notaður er til að styrkja sjálfráða ungmenni sem búa við fátækt til náms sem gefur þeim réttindi til starfs eða veitir þeim aðgang að lánshæfu námi. Sjóðurinn hefur verið til frá árinu 2006 en markmiðið með styrkveitingu úr honum er að rjúfa vítahring stuttrar skólagöngu, lágra launa og fátæktar.

Kærar þakkir fyrir samhug og frábæran stuðning! 

12.10.2018
Vissir þú að …
HK act 1
  • félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa sérstakan viðtalstíma og taka á móti fólki sem leitar eftir efnislegri aðstoð á miðvikudögum klukkan 12 – 16?
  • alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar Hjálparstarfsins fyrir síðustu  jól?
  • hinir ómetanlegu sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins taka á móti fólki á lager Hjálparstarfsins í kjallara Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66 á þriðjudögum milli klukkan 10 og 12 og hjálpa því að finna sér fatnað við hæfi?
  • annar hópur öflugra sjálfboðaliða mætir vikulega til að taka fatnað sem almenningur gefur Hjálparstarfinu upp úr pokum, flokka hann og setja í hillur?
  • í desember 2017 og janúar 2018 fengu 360 fjölskyldur (um 970 einstaklingar) notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu?
  • félagsráðgjafar Hjálparstarfsins þróa úrræði í samvinnu við notendur þjónustunnar og skipuleggja sjálfstyrkingarnámskeið og ýmis valdeflandi verkefni allt árið um kring?  
10.08.2018
“Ég vil koma aftur næsta sumar!”
Forsíðumynd þarf að klippa til

Góð stemning ríkti í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn nú í júni en þá stóðu Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn á Íslandi saman að fjögurra daga sumarfríi fyrir fjölskyldur í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn fimmta sumarið í röð. Tilgangurinn var sem fyrr að stuðla að jákvæðri upplifun fyrir börn og foreldra sem búa við efnislegan skort og hafa alla jafna ekki tök á að fara saman í frí. Tíu fjölskyldur, alls 48 einstaklingar, fóru í fríið að þessu sinni.

Gleði og rólegheitastemning ríktu á svæðinu enda markmið margra að njóta einfaldlega samverunnar í sveitasælunni.  “Það er gott að fá tækifæri til að hlaða batterín og þurfa hvorki að elda né vaska upp,” sagði ein mamman aðspurð um hvernig hún nyti dvalarinnar. 

Meðal dagskrárliða voru bogfimi, hjólabátar, kajakar, vatnasafarí, klifur og sund.  Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins og verkefnisstjóri sumarfrísins sagði að börnin hefðu notið dvalarinnar í botn enda mikið fíflast og leikið úti við. “Svo var mjög gaman þegar nokkrar stelpur tóku bara völdin síðasta kvöldið og stýrðu fjöldasöng og skemmtidagskrá kvöldvökunnar sjálfar,” sagði hún.

Markmið með valdeflingarverkefnum á borð við sumarfríið er að fólk finni styrk sinn og getu til að takast á við erfiðar aðstæður og til að komast út úr félagslegri einangrun sem oft er fylgifiskur efnaleysis. Sérstök áhersla er lögð á þarfir barna og unglinga og starfið miðar að því að þau hafi sterka sjálfsmynd og séu virkir þátttakendur í samfélaginu.